Mark Gallagher kom á 39. mínútu. Einföld afgreiðsla, fast skot með hægri fæti við vítapunktinn eftir góðan undirbúning og stoðsendingu frá Rodrigo de Paul.
Antoine Griezmann bætti svo við og tvöfaldaði forystu heimamanna snemma í seinni hálfleik. Markið kom upp úr löngu innkasti, klafs í teignum og boltinn datt fyrir framherjann sem slúttaði af snilli.

Julian Álvarez kom inn af varamannabekknum á 61. mínútu, þetta var fjórði leikur hans eftir félagaskiptin frá Manchester City. Hann skoraði svo fyrsta markið fyrir félagið á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar hann potaði boltanum yfir línuna af mjög stuttu færi eftir frábæra skyndisókn.
Þetta var þriðji sigur Atlético Madrid á tímabilinu, liðið situr nú í 3. sæti með 11 stig, jafnmörg og nágrannarnir Real Madrid í 2. sætinu. Barcelona er með fullt hús stiga í efsta sæti deildarinnar.
Valencia er hins vegar í vondum málum, aðeins með eitt stig og í neðsta sæti deildarinnar eftir fimm leiki. Liðið endaði í 9. sæti á síðasta tímabili.