Fótbolti

Nóel Atli með brotið bein í fæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nóel Atli hefur spilað sjö leiki í efstu deild Danmerkur.
Nóel Atli hefur spilað sjö leiki í efstu deild Danmerkur. Álaborg

Nóel Atli Arnórsson, leikmaður Álaborgar í dönsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu og yngri landsliða Íslands, er með brotið bein í fæti. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolti.net.

Nóel Atli kom inn í lið Álaborgar undir lok síðasta tímabils þegar liðið tryggði sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni á nýjan leik. Hann hefur síðan verið lykilmaður í upphafi tímabils og komið við sögu í öllum leikjum liðsins til þessa.

Hann nældi sér í gult spjald gegn Randers í síðasta leiknum fyrir landsleikjahlé ásamt því að verða fyrir smávægilegum meiðslum. Í viðtalinu við Fótbolti.net sagði Nóel Atli að „um lítið brot í sköflungsbeini sé að ræða.“

Nóel Atli var valinn í U-19 ára landslið Íslands sem mætti Mexíkó, Katar og Kasakstan í vináttulandsleikjum sem fram fóru í Slóveníu. Vegna meiðslanna gat hann þó ekki verið með er Ísland vann Mexíkó 3-0 og Kasakstan 5-2 en mátti þola 0-1 tap gegn Katar.

Alls hefur varnarmaðurinn efnilega spilað 14 landsleiki fyrir U15 til U19 ára lið Íslands. Hann vonast til að snúa til baka um miðjan október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×