Veður

Snjó­koma á Norður­landi og ekki mælt með ferða­lögum

Magnús Jochum Pálsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Fólk á göngu í snjóstormi og kulda. Sennilega verður veðrið einhvern veginn svona á morgun.
Fólk á göngu í snjóstormi og kulda. Sennilega verður veðrið einhvern veginn svona á morgun. Vísir/Vilhelm

Appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir allt Norðurland vegna hvassviðris og talsverðrar snjókomu á mánudagskvöld og út þriðjudaginn. Samgöngutruflanir eru líklegar og Veðurstofan mælir ekki með ferðalögum.

Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur segir að kólna muni hratt í kvöld og á morgun með vaxandi norðanátt í kortunum. Spáð er snjókomu eða éljum víða á norðanverðu landinu strax í nótt.

„Svo verður meiri snjókoma og úrkomuákefð þegar líður á morgundaginn og annað kvöld. Þannig að við höfum sett appelsínugular viðvaranir á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra frá klukkan 18 á morgun. Þær eru í gildi alveg langt fram eftir þriðjudegi,“ segir Kristín.

Það sé fyrst og fremst af því þetta er óvenjulegt miðað við árstíma. Eins reiknar Veðurstofan með því að fólk sé á sumardekkjum frekar en vetrarbúnum bílum.

Er þetta ekki óvenju snemma á árinu?

„Jú, frekar snemma á árinu miðað við venjulega en við höfum alveg upplifað svona áður. Til dæmis í september 2012 var norðanáhlaup sem mjög margir muna eftir. Við búumst ekki alveg við álíka núna en viljum samt vara við þessu,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×