Fótbolti

Stutt gaman hjá Telles í Sádi-Arabíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Telles hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Al Nassr.
Telles hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Al Nassr. EPA-EFE/ALI HAIDER

Vinstri bakvörðurinn Alex Telles er ekki lengur leikmaður Al Nassr í Sádi-Arabíu. Hann gekk til liðs við félagsins sumarið 2023 en liðið hefur nú ákveðið að losa hann undan samningi.

Hinn 31 árs gamli Telles kom til Al Nassr frá Manchester United þar sem hann átti ekki sjö dagana sæla. Hann var ekki í stóru hlutverki á sínu fyrsta tímabili í Sádi-Arabíu og nú hefur Al Nassr, lið Cristiano Ronaldo, ákveðið að losa leikmanninn undan samningi.

Ástæðan er sú að liðið má aðeins vera með ákveðinn fjölda erlendra leikmanna og vill eflaust fá inn öflugri leikmann í hans stað.

Gabriel, 19 ára gamall leikmaður Chelsea, er orðaður við félagið en hann kemur frá Brasilíu líkt og Telles. Þar sem hann er aðeins 19 ára gamall þá fellur hann ekki inn í sama flokk og Telles er varðar erlenda leikmenn.

Al Nassr gæti því sótt Gabriel og annan öflugri leikmann sem gæti mögulega matað áðurnefndan Ronaldo sem ætlar sér að raða inn mörkum fyrir félagið.

Telles hefur spilað 12 A-landsleiki á ferli sínum ásamt því að spila fyrir félög á borð við Grêmio, Galatasaray, Inter Milan, Porto, Man United og Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×