Erlent

Játaði á sig hundruð brota gegn 60 barn­ungum stúlkum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Griffith verður gerð refsing í næstu viku og búist er við því að fyrirtakan muni taka nokkurn tíma, þar sem margir munu vilja gera grein fyrir því hvaða áhrif brot hans hafa haft á börnin og fjölskyldurnar.
Griffith verður gerð refsing í næstu viku og búist er við því að fyrirtakan muni taka nokkurn tíma, þar sem margir munu vilja gera grein fyrir því hvaða áhrif brot hans hafa haft á börnin og fjölskyldurnar.

Barnaníðingur að nafni Ashley Paul Griffith hefur játað að hafa brotið gegn um það bil 60 stúlkum í Brisbane í Ástralíu og á Ítalíu á árunum 2007 til 2022. Hann hefur þegar verið dæmdur sekur en bíður þess að vera gerð refsing.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Ástralíu, þar sem Griffith virðist hafa farið á milli leikskóla og/eða annarra barnagæslustofnana (e. childcare centres) og framið hundruð brota án þess að það kæmist upp.

Ákæruliðirnir voru samtals 307 og játaði Griffith, 46 ára, fyrir dómi í morgun að vera sekur um þá alla.

Yfirfullt var í réttarsalnum og sumir viðstaddra grétu þegar ákærnar voru lesnar upp.

Griffith var meðal annars dæmdur fyrir 28 nauðganir og framleiðslu barnaníðsefnis en hann er sagður hafa myndað öll brotin. Þá var hann einnig fundinn sekur um fjölda annarra kynferðisbrota og fyrir vörslu barnaníðsefnis.

Níðingurinn, sem var með réttindi til að starfa með börnum, starfaði á fjölda leikskóla í Brisbane, Sydney og Písa á Ítalíu. Hann var handtekinn í Ástralíu árið 2022.

Búið er að bera kennsl á öll fórnarlamba hans og gera fjölskyldum viðvart.

Foreldrar einnar stúlkunnar tjáðu sig fyrir utan dómshúsið í morgun og sögðu að það hefði verið léttir að Griffith játaði og sleppa þannig við réttarhöld. Sögðust þau hafa reynt að útskýra málið fyrir dóttur sinni en hún væri enn mjög ung og skildi ekki alveg um hvað það snérist.

„Við munum þurfa að taka á þessu samhliða því að hún vex úr grasi og í gegnum allt lífið,“ sagði faðir stúlkunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×