Körfubolti

„Mark­mið hjá okkur að fá til okkar uppalda KR-inga“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir er kominn heim í Vesturbæ.
Þórir er kominn heim í Vesturbæ. Mynd/KR

KR-ingar kynntu í gær nýjan leikmann hjá körfuboltafélagi félagsins en jafnframt leikmann sem stuðningsmenn KR þekkja vel. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kemur til liðsins frá Tindastól þar sem hann spilaði síðasta vetur.

Þórir er einn af fjölmörgum frábærum körfuboltamönnum sem hafa komið upp í gegnum unglingastarf KR. Þórir hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari með KR en hann lék síðast með félaginu árið 2021 en fór þá í atvinnumennsku á miðri leiktíð.

Hann kom aftur heim til Íslands síðasta haust en KR var þá í 1. deildinni. Þórir fór þá á kostum með Stólunum og var með 18,0 stig, 8,3 fráköst og 6,6 stoðsendingar í leik.

„Ég er mjög ánægður að vera ganga aftur til liðs við KR. Hér ólst ég upp og finnst best að vera. Það er verið að byggja upp flott lið af heimastrákum og er ég spenntur að taka þátt í því og þeim verkefnum sem framundan eru. KR er og verður alltaf stærsti klúbbur á Íslandi og ég hlakka til að sjá alla KR-inga í stúkunni í vetur,“ sagði Þórir í fréttatilkynningu KR.

„Það hefur verið ákveðið markmið hjá okkur að fá til okkar uppalda KR-inga sem voru að spila annars staðar. Tóti hefur sýnt að hann er einn af albestu leikmönnum deildarinnar og því gríðarlega stórt og mikilvægt fyrir okkur að fá hann heim í KR,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari meistaraflokks karla.

„Við hjá körfuknattleiksdeild KR erum gífurlega stolt og ánægð með hafa náð samkomulagi við Þóri. Þórir er eins og allir vita einn besti körfuboltamaður okkar Íslendinga og hann er einn harðasti KR-ingur sem fyrirfinnst,“ sagði Egill Ástráðsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×