Fótbolti

„Að fá svona díl hjálpaði mikið til í að taka þessa á­kvörðun“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhann Berg virðist ánægður í Sádi-Arabíu.
Jóhann Berg virðist ánægður í Sádi-Arabíu. @alorobah_fc

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu. viðurkennir að launin sem hann fær í Sádi-Arabíu hafi spilað sinn þátt í að hann ákvað að yfirgefa Burnley á Englandi eftir átta ár hjá félaginu.

Hinn 33 ára gamli Jóhann Berg varð samningslaus í sumar og var að leita sér að nýju liði þegar hann ákvað nokkuð óvænt að semja við Burnley á nýjan leik. Það var því enn óvæntara þegar hann samdi við Al-Orobah, efstu deildarlið í Sádi-Arabíu.

Landsliðsmaðurinn var til viðtals í hlaðvarpi Íþróttavikunnar sem kemur út á vef 433.is. Þar segir hann að nú hafi verið tímapunkturinn til að prófa eitthvað nýtt.

„Eitthvað innra með mér sem vildi fara til Sádi-Arabíu. Ég var auðvitað búinn að vera á Englandi í tíu ár og var þyrstur í að prófa eitthvað nýtt,“ sagði Jóhann Berg meðal annars.

Jóhann Berg fór ekki í grafgötur með það að peningar spiluðu sinn þátt í þessari ákvörðun.

„ Ég er að verða 34 ára og að fá svona díl hjálpaði mikið til í að taka þessa ákvörðun. Mig langaði líka að prófa eitthvað nýtt og fannst þetta spennandi ævintýri,“ sagði hann einnig.

Hann hefur þegar spilað tvo leiki til þessa og gefið eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×