Körfubolti

Þórir mættur heim í KR

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þórir er kominn á heimaslóðir.
Þórir er kominn á heimaslóðir. Vísir/Valur

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er kominn á heimaslóðir og hefur samið við KR um að leika með liðinu í Bónusdeild karla í körfubolta í vetur. Hann kemur til liðsins frá Tindastóli.

Þórir er 26 ára gamall og ólst upp hjá KR-ingum. Hann lék með liðinu á unga aldri, frá 2014 til 2017 og varð því Íslandsmeistari með Vesturbæingum árin 2015, 2016 og 2017. Þá varð hann einnig bikarmeistari síðari tvö árin.

Hann var jafnframt valinn besti ungi leikmaður deildarinnar 2017.

Hann lék við góðan orðstír með Nebraska háskóla frá 2017 til 2021 og fór þaðan til Landstede Hammers í Hollandi. Eftir eina leiktíð þar spilaði hann með Oviedo á Spáni leiktíðina eftir.

Hann stoppaði einnig stutt við á Spáni og samdi við Tindastól síðasta haust. Eftir einn vetur á Sauðárkróki er Þórir nú snúinn aftur í heimahagana.

KR er nýliði í Bónusdeildinni eftir að hafa unnið 1. deild karla síðasta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×