Erlent

Ætluðu sér að myrða tug­þúsundir á tón­leikum Swift

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðdáendur Swift hafa lært að bogna en ekki brotna í mótlæti og söfnuðust saman í Vínarborg og sungu og skemmtu sér.
Aðdáendur Swift hafa lært að bogna en ekki brotna í mótlæti og söfnuðust saman í Vínarborg og sungu og skemmtu sér. Getty/Thomas Kronsteiner

Mennirnir sem voru handteknir í tengslum við fyrirhugaða árás á tónleika Taylor Swift í Vínarborg ætluðu sér að myrða tugþúsundir, að sögn aðstoðarforstjóra CIA.

Þrennum tónleikum tónlistarkonunnar í Vínarborg var frestað í kjölfar handtakanna, aðdáendum til mikilla vonbrigða.

David Cohen ræddi málið á árlegri ráðstefnu um þjóðaröryggi í Maryland.

Hann sagði að mennirnir hefðu haft í hyggju að myrða tugþúsundir aðdáenda Swift og að þeir hefðu verið langt komnir í skipulagningunni. Hugðust þeir beita eggvopnum og heimatilbúnum sprengjum við ódæðið.

Það voru öryggisyfirvöld í Bandaríkjunum sem komust á snoðir um áætlunina og gerðu kollegum sínum í Austurríki viðvart. Gerhard Karner, innanríkisráðherra Austurríkis, segir að aðstoðar hafi verið þörf, meðal annars þar sem þarlend yfirvöld hafi ekki heimildir til að fylgjast með textaskilaboðum.

Forsprakkinn á bakvið árásirnar var 19 ára karlmaður, sem yfirvöld segja hafa sótt innblástur frá Ríki íslam. Hann og 17 ára piltur voru handteknir 6. ágúst, degi áður en tónleikunum var aflýst.

Á ráðstefnunni í Maryland lofaði Cohen störf CIA við að koma í veg fyrir hryðjuverk og sagði fjölda mála aldrei rata í fjölmiðla. Þetta hafi verið góður dagur í höfuðstöðvunum.

„Og ekki bara fyrir Swift-aðdáendurna í starfsmannahópnum,“ sagði hann.

Sjálf hefur Swift harmað að hafa þurft að aflýsa tónleikunum en hún varð fyrir öðru áfalli í sumar þar sem þrjár stúlkur voru myrtar í danstíma á Bretlandseyjum, þar sem tónlist hennar var í aðalhlutverki.

Þá er skemmst að minnast þess þegar 22 voru myrtir á tónleikum Ariönu Grande í Manchester á Englandi árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×