Á vef Spanish News Today er það fullyrt að fnykur hafi borist til sjálfstjórnarhéraðsins Galacia, Cantabria og til Baskalands.
„Það getur alveg verið til í dæminu, að þetta berist langar leiðir,“ segir Þorsteinn Jóhannsson hjá Umhverfisstofnun sem var spurður út í málið í Reykjavík síðdegis. „Ég var nú samt bara að frétta af þessu núna.“
„Í þessu gosi núna var að mælast toppur í Edinborg í Skotlandi. Í síðasta gosi var hæsti toppur sem mældist á mælistöð líka í Edinborg og það var rakið hingað. Þá voru sömu aðstæður, norðanátt og þá getur þetta boris,“ segir Þorsteinn sem hafði ekki heyrt af því að mengunin hefði borist til Spánar.
„Þetta rignir á endanum niður í sjóinn og skolast út,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn útskýrir einnig hvað valdi því að mikil gosmóða hafi myndast síðustu daga.
„Þetta er upprunnið úr gosinu. Þaðan kemur SO2-gas, sem er ekki sýnilegt en það hvarfast við súrefni og verður SO4, og þá sést það betur. Fólk getur fundið sviða í augum og hálsi, þetta er meira ertandi efni þó þetta sé ekki hættulegt núna. En fólk sem er viðkvæmt fyrir getur fundið meira fyrir þessu, með astma og slíkt.“
Gosmengunin hefur sést víða suðvestanlands og á Suðurlandi.
„Þetta er gamall gosmökkur, sem fór út á haf í norðanáttinni en er svo búið að taka U-beygju með lægð og kemur til baka. Þá er mest allt SO2 búið að hvarfast við SO4 og þá verður þetta sýnilegri mökkur.“
Þorsteinn segir það að hafa glugga lokaða aðeins hjálpa til styttri tíma. Gildi hafi hins vegar ekki farið yfir heilsuverndarmörk hingað til.
„Þetta er í raun meira ertandi svifryk en þetta venjulega svifryk sem mörkin eru sett á. Því finnur fólk meira fyrir þessu. Þetta er sennilega versta tegundin af svifryki.
Hann segir að ef veðurspá gangi eftir ætti gosmóðan að kveðja seinnipartinn á morgun með norðanátt.