Enski boltinn

Liverpool með Guardiola töl­fræði í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, fagnar sigri á Brentford í gær en með honum er Harvey Elliott.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, fagnar sigri á Brentford í gær en með honum er Harvey Elliott. Getty/Michael Regan

Arne Slot, nýr knattspyrnustjóri Liverpool, er strax byrjaður að láta knattspyrnufræðinga fletta upp í sögubókunum.

Slot tók við Liverpool af Jürgen Klopp í sumar og óhætt er að segja að byrjunin undir hans stjórn lofi góðu.

Liverpool vann 2-0 sigur á Brentford í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í gær og hefur þar með unnið tvo fyrstu leikina og það án þess að fá á sig mark. Liðið vann 2-0 útisigur á Ipswich Town í fyrstu umferðinni.

Slot varð þar með fyrsti knattspyrnustjóri Liverpool í 33 ár til að vinna tvo fyrstu deildarleiki sína eftir að hafa tekið við liðinu. Liverpool vann líka tvo fyrstu deildarleiki sína undir stjórn Graeme Souness í apríl 1991, 3-0 sigra á bæði Crystal Palace og Norwich.

Það var þó annað sem vakti líklega enn meiri athygli en það var sendingatölfræði Liverpool í leiknum í gær.

Leikmenn Liverpool reyndu 602 sendingar í leiknum og 92 prósent þeirra heppnuðust.

Þetta er hæsta prósentuhlutfall heppnaða sendinga hjá Liverpool í einum leik síðan 2003.

Það var talað um að Slot væri líkari Pep Guardiola hjá Manchester City heldur en Jürgen Klopp.

92 prósent sendingahlutfall er einmitt hægt að kalla Guardiola tölfræði en spænski stjórinn vill að sín lið haldi boltanum og spili mikið af stuttum sendingum. Sá hollenski vill greinilega fara sömu leið og ef marka má þessa byrjun þá er það að koma vel út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×