Hraunsprungan er um tveimur tímum eftir að eldgosið hófst tæpir fjórir kílómetrar. Eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni klukkan 21:26 í kvöld. Öflug jarðskjálftahrina hófst klukkan 20:48. Stærsti skjálftinn sem hefur fylgt hrinunni mældist um klukkan 22:37 og fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu.
Jarðskjálftinn átti upptök sín þrjá kílómetra norðaustur af Stóra-Skógfelli og var 4,1 að stærð samkvæmt yfirförnum tölum Veðurstofunnar. Síðast varð skjálfti af þessari stærð 18. desember um klukkutíma fyrir eldgos. Sá skjálfti varð rétt suðaustan við Hagafell.
„Það er búið að draga úr skjálftavirkni síðasta klukkutímann,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur og að það hafi byrjað að róast eftir stóra skjálftann.
„Það er enn umframvirki, eins og við sáum í dag, en þetta virðist vera að deyja út. Sem er það sem við höfum séð áður. Það kemur mest virkni á meðan þetta er að brjótast upp og byrja og svo lognast hún út af,“ segir hún og að mesta virknin klárist líklega í nótt.