Enski boltinn

Pellistri verður sam­herji Sverris og Harðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Facundo Pellistri á ferðinni í Samfélagsskildinum sem reyndist síðasti leikur hans fyrir Manchester United.
Facundo Pellistri á ferðinni í Samfélagsskildinum sem reyndist síðasti leikur hans fyrir Manchester United. getty/Eddie Keogh

Manchester United hefur selt úrúgvæska landsliðsmanninn Facundo Pellistri til Panathinaikos. 

Talið er að kaupverðið sé rétt rúmlega fimm milljónir punda. Pellistri skrifaði undir fjögurra ára samning við Panathinaikos. United getur keypt Pellistri aftur á næstu þremur árum og þá fær félagið 45 prósent af næstu sölu Úrúgvæans.

Pellistri kom til United frá Penarol í heimalandinu 2020 en lék aðeins 25 leiki fyrir aðalliðið.

Hann var í tvígang lánaður til Alavés og seinni hluta síðasta tímabils lék hann sem lánsmaður með Granada. Þar lék hann fimmtán leiki og skoraði tvö mörk.

Hjá Panathinaikos hittir Pellistri fyrir íslensku landsliðsmennina Sverri Inga Ingason og Hörð Björgvin Magnússon.

Pellistri, sem er 22 ára kantmaður, hefur leikið 26 landsleiki fyrir Úrúgvæ og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×