Serbneski íþróttamaðurinn Lazar Dukic drukknaði í fyrstu grein heimsleikanna. Þar voru keppendur látnir synda í vatni eftir að hafa hlaupið á undan. Dukic hvarf ofan í vatnið um fimmtíu metra frá marki og ekki tókst að bjarga honum.
Margir hafa kallað eftir viðbrögðum vegna þessa hræðilega slyss. Svona á ekki að geta gerst og það er mat allra að nú þurfi að gera breytingar.
PFAA samtökin vilja að Dave Castro verði rekinn úr starfi sínu vegna málsins. Castro er íþróttastjóri heimsleikanna og er því sá sem er yfir því að ákveða það í hvernig greinum er keppt í á heimsleikunum. Morning Chalk Up fjallar um þetta.
Castro hefur alltaf verið umdeildur maður í CrossFit hreyfingunni og hann missti starfið sitt hjá CrossFit þegar síðasta hneykslismál kom upp. Það var í kringum það þegar það urðu eigendaskipti hjá samtökunum. Hann snéri seinna aftur til samtakanna og hefur verið íþróttastjóri síðustu árin.
PFAA samtökin heimta ekki aðeins að Castro hætti afskiptum af heimsleikunum.
Þau vilja að CrossFit samtökin setji saman sérstakt öryggissveit sem muni starfa með PFAA. Sveitin fengi það verkefni að fara yfir og votta mögulegar greinar á leikunum.
PFAA samtökin vilja líka algjört gegnsæi þegar kemur að rannsókn og niðurstöðum utanaðkomandi þriðja aðila á því sem gerðist þegar Lazar drukknaði.
PFAA segir síðan að framhald samstarfsins á milli samtakanna og CrossFit fari algjörlega eftir því hvernig CrossFit bregst við þessum kröfum.