Innlent

Bæjar­stjórn hefur ekki gefið upp von um endur­reisn Skagans 3X

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Frá athafnasvæði Skagans 3X á Akranesi.
Frá athafnasvæði Skagans 3X á Akranesi. Vísir/Arnar

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar lýsir yfir miklum harmi yfir þeirri stöðu sem upp er komin í máli Skagans 3X en hún hefur þó ekki gefið upp alla von um endurreista starfsemi fyrirtækisins á Akranesi.

Í yfirlýsingu frá Akraneskaupstað kemur fram að bæjarstjórn skori á alla málsaðila að reyna til þrautar að ná samningum um að endurreisa starfsemi Skagans 3X í bænum. Hann lýsir yfir vilja til að koma beint að samningum aðila á milli með öllum þeim ráðum sem sveitarfélaginu eru fær.

„Akraneskaupstaður var tilbúinn að styðja við aðgerðir, með þeim ráðum sem sveitarfélag á hverjum tíma hefur tækifæri til og gætu skipt máli um framtíð félagsins á Akranesi. Fjárhagsleg endurskipulagning á fyrirtækinu var verkefnið, sem því miður ekki tókst og voru það því mikil vonbrigði þegar félagið var lýst gjaldþrota þann 4. júlí,“ segir í tilkynningu sem birt var á vef bæjarins í dag.

Þar kemur fram að bæjarstjórn hafi allt frá þeim tíma lagt höfuðáherslu á að fyrirtækið yrði endurreist á Akranesi, með hagsmuni starfsmanna og bæjarfélagsins í forgrunni. Í því skyni hafi fulltrúar bæjarins átt ótal samtöl við fjölda aðila um mögulega endurreisn, sem og aðkomu Akraneskaupstaðar að lausn málsins.

„Skiptastjóri upplýsti Akraneskaupstað um þau atriði í innsendum tilboðum sem snerust um sérstaka aðkomu af hendi Akraneskaupstaðar. Efnislega sneru þau að framtíðarstaðsetningu fyrirtækisins á Akranesi. Akraneskaupstaður lýsti sig ávallt tilbúinn í viðræður, en á það reyndi því miður ekki,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×