Fótbolti

Hákon Arnar kom inn fyrir Angel Gomes sem meiddist illa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gomes var á endanum borinn af velli.
Gomes var á endanum borinn af velli. Ligue 1

Hákon Arnar Haraldsson kom inn af bekknum í 1-0 sigri Lille á Reims eftir að Angel Gomes varð fyrir skelfilegum meiðsli og leikurinn var stöðvaður í rúmlega hálftíma.

Flestar af stærstu knattspyrnudeildum Evrópu eru farnar af stað og sú franska er ekki þar undanskilin. Lille sótti Reims heim í dag í því sem var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Bruno Genesio en hann tók við af Paulo Fonseca sem AC Milan réð í sumar.

Íslenski landsliðsmaðurinn Hákon Arnar mátti þola það að hefja leik á bekknum en kom inn á eftir að Abdul Kone keyrði inn í Angel Gomes með þeim afleiðingum að Englendingurinn lá óvígur, og meðvitundarlaus, eftir. 

Kone fékk rautt spjald fyrir brotið en næsta hálftímann var allt stopp áður en Gomes náði meðvitund á ný og farið var með hann á sjúkrahús. Lille staðfesti það á samfélagsmiðlum sínum en ekki er vitað meira að svo stöddu.

Hákon Arnar kom eins og áður sagði inn fyrir Gomes á 44. mínútu þegar leikurinn hófst að nýju. Það var hins vegar vel rúmlega hálftíma bætt við fyrri hálfleikinn og á þeim tíma tókst varnarmannonum Bafode Diakite að koma gestunum yfir. Hann fagnaði með því að sýna myndavélinni treyju Gomes.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í síðari hálfleik skoraði Jonathan David annað mark Lille eftir undirbúning hins 17 ára Ethan Mbappé og lokatölur 2-0 Lille í vil.

Í Noregi lagði Sædís Rún Heiðarsdóttir upp fyrsta mark Vålerenga í 6-0 sigri liðsins á Arna-Bjørnar. Sædís Rún og stöllur eru á toppi deildarinnar með 48 stig að loknum 18 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×