Íslenska liðið hefur staðið sig frábærlega á mótinu í Svartfjallalandi en liðið vann sinn riðil og tryggði sér sigur í undanúrslitum með því að lenda í öðru sæti í milliriðli á eftir Svíum.
Danir voru andstæðingar íslenska liðsins í dag en danska liðið fór taplaust í gegnum riðlakeppni sem og milliriðil og því ljóst fyrir leikinn að um erfiðan andstæðing var að ræða.
Sú varð líka raunin. Eftir jafnar upphafsmínútur tóku Danir frumkvæðið. Í stöðunni 6-6 skoruðu Danir tólf mörk gegn tveimur og munurinn skyndilega orðinn tíu mörk og í hálfleik var staðan 18-9 fyrir Dani. Þann mun náðu strákarnir okkar aldrei að brúa, þeir minnkuðu muninn mest niður í fimm mörk í síðari hálfleik en þá gáfu Danir í á nýjan leik.
Lokatölur 34-26 og Ísland leikur því um bronsverðlaunin á sunnudag þar sem annað hvort Svíar eða Ungverjar verða andstæðingarnir en þeir mætast í seinni undanúrslitaleik mótsins í kvöld.
Mörk Íslands: Dagur Árni Heimisson 9, Ágúst Guðmundsson 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Stefán Hjartarson 4, Garðar Ingi Sindrason 2, Harri Halldórsson 1, Magnús Dagur Jónatansson 1.
Jens Sigurðarson varði fjögur skot í markinu eða 12% þeirra skota sem hann fékk á sig.