Íslenski boltinn

„Allir leikir sem Valur spilar eru úr­slita­leikir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Túfa fer yfir málin á varamannabekknum í leik kvöldsins.
Túfa fer yfir málin á varamannabekknum í leik kvöldsins. Vísir/Diego

„Þetta eru svekkjandi úrslit og það var óþarfi að tapa þessum leik,“ sagði Srdjan Tufegdzic, Túfa, eftir tap Vals gegn Breiðabliki í kvöld.

„Við fengum nóg af færum og sérstaklega í byrjun leiks til að komast yfir og hafa leikinn á okkar forsendum. En það vantaði hjá okkur þessi síðustu tíu prósent til að ýta boltanum yfir línuna og það er þar sem skilur að.“

Fyrir leik vildi Túfa ekki meina að leikur kvöldsins væri hálfgerður úrslitaleikur um það hvort liðið ætlaði sér að vera með í baráttunni við Víking um Íslandsmeistaratitilinn.

„Allir leikir sem Valur spilar eru úrslitaleikir. Það er bara í DNA-inu hjá félaginu. En við megum ekki gleyma að það er fullt af leikjum eftir og það eina sem skiptir máli núna er að spila vel. Það þýðir ekkert að vorkenna sjálfum sér og nú þurfum við bara að mæta á æfingu á morgun og undirbúa leik sem er strax á mánudaginn á móti FH.“

Hann vill þó ekki meina að hans lið hafi koðnað niður eftir góða byrjun í leik kvöldsins.

„Ég er ekki sammála því að þetta koðni niður hjá okkur. Að sjálfsögðu þegar þú færð svona mörg færi eins og við fáum á fyrstu tuttugu mínútunum, þrjú dauðafæri til að komast yfir, þá dettur þetta auðvitað aðeins niður.“

„Við erum líka að spila á móti Breiðabliki sem er gott lið, en mér fannst þetta ekkert vera í myndinni. Við vorum hægt og rólega eftir kannski ekki góða byrjun í seinni hálfleik að ná stjórn á þessu og ég hef alveg trú á því að við munun halda áfram og sýna samstöðu í næsta leik,“ sagði Túfa að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×