Fjöldi manns hefur fallið í átökum við lögreglu og þúsundir verið handtekin á fjöldamótmælum gegn opinberum úrslitum forsetakosninganna í Venesúela sem fóru fram 28. júlí.
Yfirkjörstjórn landsins lýsti Nicolás Maduro, sitjandi forseta, sigurvegara en stjórnarandstaðan hafnar þeirri niðurstöðu. Hún segir að tölur sem hún hefur frá kjörstöðum bendi til þess að Edmundo González, frambjóðandi hennar, hafi farið með sigur af hólmi.
Fjögurra manna kosningaeftirlitsnefnd sem António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sendi til þess að fylgjast með kosningunum var ein af örfáum óháðum eftirlitsaðilum sem ríkisstjórn Maduro bauð til landsins.
Sérfræðingarnir fordæma ákvörðun yfirkjörstjórnar Venesúela um að lýsa Maduro sigurvegara án þess að birta niðurstöður úr 30.000 kjörklefum á landsvísu. Það stangaðist á við lög og ætti sér „engin fordæmi í lýðræðislegum kosningum í samtímanum“.

Vísbendingar um að stjórnarandstaðan hafi rétt fyrir sér
Stjórnarandstaðan birti á dögunum gögn frá meirihluta kjörstaða sem hún sagði að sýndi að González hefði unnið öruggan sigur á Maduro. Undir það tóku erlendir fjölmiðlar eins og AP-fréttastofan en þeir gátu þó ekki vottað að gögnin væru ósvikin.
Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna tekur ekki fullum fetum undir fullyrðingar stjórnarandstöðunnar en segir þó að gögnin sem hún lagði fram virðist vera ekta, að því er kemur fram í frétt AP.
Carter-miðstöðin, mannúðarsamtök Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sögðu nýlega að þau gætu ekki staðfest opinber kosningaúrslit í Venesúela. Utanríkisráðherra landsins brást við með því að saka samtökin um lygar og undirgefni við „heimsvaldastefnu“ Bandaríkjanna.
Lýsir áhyggjum af gerræðislegum viðbrögðum stjórnvalda
González og María Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, fóru í felur eftir kosningarnar vegna hótana Maduro um að þau yrðu handtekin fyrir að afneita úrslitum kosninganna. Ríkissaksóknari landsins hóf í kjölfarið sakamálarannsókn á þeim.
Volker Türk, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti áhyggjum af gerræðislegum handtökum á fólki í Venesúela og óhóflegri valdbeitingu öryggissveita við að kveða niður mótmæli.
„Það er sérstakt áhyggjuefni að svo margir séu handteknir, ásakaðir eða ákærðir annað hvort fyrir að æsa til haturs eða á grundvelli hryðjuverkalaga. Hegningarlögum ætti aldrei að beita til þess að takmarka óhóflega rétt fólks til tjáningarfrelsis eða friðsamlegra samkoma,“ sagði Türk.
Saksóknarar Alþjóðasakamáladómstólsins segjast fylgjast grannt með ástandi mála í Venesúela.