Fótbolti

Spán­verjar Ólympíu­meistarar eftir mara­þon­leik gegn Frökkum

Siggeir Ævarsson skrifar
Sergio Camello fagnar fyrra marki sínu í framlengingunni
Sergio Camello fagnar fyrra marki sínu í framlengingunni vísir/Getty

Heimamenn í Frakklandi og Spánverjar mættust í úrslitaleik U23 liða í fótbolta á Ólympíuleikunum í kvöld í dramatískum leik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu.

Enzo Millot kom heimamönnum yfir á 11. mínútu en Spánverjar svöruðu með þremur mörkum í röð, þar af tveimur frá Fermín López, og leiddu 1-3 í hálfleik.

Frakkar neituðu að gefast upp og sóttu án afláts í seinni hálfleik og settu mikla pressu á spænska liðið. Þeim tókst loks að brjóta ísinn á 79. mínútu þegar Maghnes Akliouche minnkaði muninn í eitt mark.

Það leit þó allt út fyrir að Spánverjar myndu ná að halda út en á 94. mínútu fengu Frakkar vítaspyrnu. Dómari leiksins dæmdi vítið ekki strax en eftir skoðun í VAR var um augljóst brot að ræða. 

Á punktinn fór Jean-Philippe Mateta, annar af tveimur reynsluboltum liðsins, og skoraði af öryggi og því þurfti að grípa til framlengingar.

Þar reyndist Sergio Camello hetja Spánverja. Hann skoraði fyrst á 101. mínútu og svo aftur í blálokin en leikurinn var flautaður af nánast strax eftir markið.

Lokatölur 3-5 Spánverjum í vil sem fara heim með Ólympíugullið í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×