Þetta kemur fram í viðtalsþættinum Segðu mér í umsjón Viktoríu Hermannsdóttur þar sem Nadine er gestur. Þau Snorri og Nadine giftu sig með sannkölluðu pompi og prakt á Siglufirði í sumar svo athygli vakti.
„Svo var að koma í ljós að við erum ekki gift, við þurfum að fara út til Katar að sækja frumrit af fæðingarvottorðinu mínu af því að Þjóðskrá vill ekki gifta okkur,“ segir Nadine í þættinum. Vísir hefur sent Þjóðskrá og Sýslumanni fyrirspurn vegna málsins.
Fær vottorðið ekki í pósti
Hún útskýrir að hún hafi fæðst á spítala í Doha í Katar. Þegar maður gifti sig þurfi að skila inn pappírum til Sýslumanns.
„Svo bara fæ ég þær fréttir að fæðingarvottorðið mitt sem er bara eitthvað skjáskot af einhverju sem við fengum sent þaðan nægir ekki, þau þurfa frumritið. Það þarf að senda mér það í bréfpósti en spítalinn úti vill ekki gera það,“ útskýrir Nadine.
Þess í stað er ætlast til þess að Nadine mæti á svæðið. Því stefnir allt í að Nadine muni þurfa að ferðast utan til Katar ætli hún að fá hjónaband sitt og Snorra lögfest. Hún segir að svo gæti farið að brúðkaupsferð þeirra verði farin þangað.
Bæði fermd og skírð á Íslandi
„Mér finnst þetta ógeðslega skrítið af því að ég er bæði fermd og skírð á Íslandi en allt í einu núna þurfa þau eitthvað fæðingarvottorð. Þannig þetta er búið að vera pínu drama,“ segir Nadine í þættinum.
Þetta hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir brúðkaupið. Þá sá Nadine á svörum frá embættunum í tölvupósti að sjálft frumritið af fæðingarvottorðinu þyrfti til. „Ég hélt bara að þetta hefði allt gengið þangað til að ég fattaði að svo er ekki. Þannig að við erum ekki gift. Þetta var bara allt eitthvað leikrit,“ segir Nadine í gríni.