Hægri hornamaðurinn Aleix Gómez skoraði sigurmark Spánar úr vítakasti þegar 25 sekúndur voru eftir. Egyptaland fékk tækifæri til að jafna í lokasókn sinni en tókst það ekki.
Egyptar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með fjórum mörkum að honum loknum, 8-12.
Spánverjar tóku við sér í seinni hálfleik en áhlaupið virtist ætla að koma of seint. Gómez jafnaði loks í 24-24 með marki úr víti en Seif Elderaa kom Egyptum aftur yfir, 24-25. Ian Tarrafeta tryggði Spánverjum svo framlengingu þegar hann jafnaði í 25-25 þegar hálf mínúta var eftir.
Í framlengingunni var spænska liðið með frumkvæðið og alltaf á undan að skora. Gómez kom Spáni í 28-27 en Yehia Elderaa jafnaði í 28-28. Spánverjar fóru svo í sókn og Alex Dujshebaev fiskaði víti sem Gómez skoraði sigurmarkið úr, 29-28.
Gómez skoraði átta mörk úr átta skotum og Tarrafeta var með sex mörk. Yehia Elderaa skoraði átta mörk fyrir Egyptaland og Seif Eldeera sex.
Í undanúrslitunum mætir Spánn sigurvegaranum úr leik Frakklands og Þýskalands sem hefst klukkan 11:30 á eftir.