Erlent

Segir af sér og flýr land

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sheikh Hasina hefur farið með völd í Bangladess frá árinu 2009.
Sheikh Hasina hefur farið með völd í Bangladess frá árinu 2009. Getty

Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, hefur sagt af sér embætti og yfirgefið landið. Yfirmaður hermála þar í landi staðfestir að hann muni taka við stjórn landsins og mynda bráðabirgðaríkisstjórn. Blóðug mótmæli hafa geysað síðan snemma í síðasta mánuði og hafa fleiri en 280 manns látið lífið.

„Ég tek við ábyrgðinni nú og við munum fara til forsetans og biðja hann um að mynda bráðabirgðaríkisstjórn til að stjórna landinu í millitíðinni,“ segir Waker-Uz-Zaman yfirmaður hermála á blaðamannafundi sem boðað var til í dag. 

Sheikh Hasina hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2009 en hún flúði land með þyrlu skömmu eftir að mótmælendur réðust inn í höll hennar í höfuðborginni Dökku í dag.

Kveikjan að mótmælunum var ákvörðun stjórnvalda um að þriðjungur opinberra starfa yrði frátekinn fyrir afkomendur uppgjafarhermanna, en þau þróuðust svo út í almenn mótmæli gegn stjórnvöldum.

Í kjölfar frelsisstríðs Bangladess við Pakistan árið 1971 var komið á kvóta, sem kvað á um að þriðjungur allra opinberra starfa yrði frátekinn fyrir afkomendur fyrrverandi hermanna. Þessi kvóti var afnuminn árið 2018, en til stóð að setja hann aftur á laggirnar nú í sumar.Áformin vöktu mikla reiði, en mikið atvinnuleysi er meðal ungs fólks í landinu.

Lagabreytingin var dregin til baka, og nú er kvótinn afmarkaður við fimm prósent opinberra starfa en áfram halda mótmælin og minnst 90 manns létu lífið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×