Íslenski boltinn

„Veit ekki af hverju Víkingar ættu að vera þjakaðir af ein­hverri pressu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Gottskálk Þórðarson er að stimpla sig inn í lið Íslandsmeistaranna.
Gísli Gottskálk Þórðarson er að stimpla sig inn í lið Íslandsmeistaranna. Vísir/Diego

Það er mikið álag á Víkingum þessa dagana og þá er gott að eiga marga öfluga leikmenn í leikmannahópnum. Hinn tvítugi Gísli Gottskálk Þórðarson sýndi í síðasta leik að hann er í þeim hópi.

Strákarnir í Stúkunni voru sammála Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings, að Gísli Gottskálk hafi verið maður leiksins í 5-1 sigri á HK í Bestu deildinni á dögunum.

„Já ég klárlega sammála Arnari þarna. Mér finnst það svolítið liggja í því sem Arnar talar um. Hann er ekki þjakaður af pressu eða skortir sjálfstraust. Hann hafði mjög gaman að spila þarna,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, sérfræðingur í Stúkunni.

„Ég veit ekki af hverju Víkingar ættu að vera þjakaðir af einhverri pressu. Það skein af honum að hann hafði gaman af þessu,“ sagði Lárus Orri sem hrósaði líka Ara Sigurpálssyni fyrir frammistöðu sína.

Allt í öllu á miðjunni

Gísli Gottskálk fékk mikið hrós frá Lárusi.

„Hann var allt í öllu hjá þeim á miðjunni. Var mjög klókur í sendingunum, alltaf að bjóða sig og vildi fá boltann alls staðar. Mjög gaman að fylgjast með honum,“ sagði Lárus.

Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Stúkunnar, benti á þá staðreynd að þarna væri ungur strákur að búa sér til pláss inn í þessu Víkingsliði og spurði hvort að það væri ekki gæðastimpill.

Hæfileikar og hugarfar

Sérfræðingurinn Albert Brynjar Ingason tók undir það. „Bæði hæfileikar á boltanum en svo líka hugarfarið. Þegar þú ert að spila með svona mörgum góðum leikmönnum þá eru körfur frá liðsfélögunum og ákveðinn standard sem þú þarft að mæta,“ sagði Albert.

„Þú finnur það strax á æfingum því þú ert látinn heyra það ef þú ert ekki að standast væntingar,“ sagði Albert en það má sjá alla umræðuna um Gísla hér fyrir neðan.

Klippa: „Ekki þjakaður af pressu eða skortir sjálfstraust“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×