Sport

Ó­trú­legur styrkur írsku rúgbý konunnar vekur mikla at­hygli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erin King átti ein af flottustu tilþrifum Ólympíuleikanna til þessa þegar hún lyfti liðsfélaga sínum Emily Lane.
Erin King átti ein af flottustu tilþrifum Ólympíuleikanna til þessa þegar hún lyfti liðsfélaga sínum Emily Lane. Getty/Cameron Spencer

Það eru hraustar stelpur sem keppa í rúgbý á Ólympíuleikunum í París en hversu sterkar eru þær?

Það efast alla vega enginn um styrk hinnar írsku Erin King eftir að myndband með henni fór á flug í netheimum.

Erin King og félagar hennar í írska landsliðinu komust í átta liða úrslitin á leikunum en urðu þar að sætta sig við tap á móti Ástralíu. Nýja-Sjáland varð Ólympíumeistari eftir sigur á Kanada í úrslitaleiknum en Bandaríkin vann Ástralíu í bronsleiknum.

Í atvikinu sem svo margir hafa deilt á samfélagsmiðlum má sjá King lyfta liðsfélaga sínum Emily Lane.

Hún lyfti Lane upp til að ná boltanum en hún þarf að fara svo hátt að King missir hana aftur fyrir sig. Að öllu eðlilegu væri Emily á leiðinni í jörðina með mögulegum háls- og bakmeiðslum.

Hún treysti hins vegar styrk Erinar King sem tókst með ótrúlegum hætti að lyfta henni aftur til baka. Það er ekkert skrýtið að tugir milljónir manna hafi horft á myndbandið.

King er aðeins tvítug og því líkleg til að mæta á miklu fleiri Ólympíuleika í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×