Hester gaf Dujardin starf á búgarði sínum árið 2007, kenndi henni og leiðbeindi í þjálfun hesta.
Þau hafa síðan tekið þátt á þremur Ólympíuleikum saman og unnið til gull-, silfurs- og bronsverðlauna.
Saman stefndu þau á keppni í París í sumar en Dujardin sagði sig frá eftir að nafnlaus ábending barst, fjögurra ára gamalt myndband þar sem hún sést lemja hest óhóflega með svipu.
Hester hafði ekki tjáð sig opinberlega um málið fyrr en í gær og segist sjá eftir því.
„Þetta endurspeglar á engan hátt hvernig ég þjálfa hesta eða kenni nemendum mínum, algjörlega óafsakanlegt. Ég skammast mín mikið og hefði átt að stíga fyrr fram og fordæma þetta,“ sagði Hester í viðtali við BBC.

„Ég hef ekki hitt hana og veit að hennar mál eru mjög, mjög flókin eins og er. En hún er umkringd fólki sem vill hjálpa henni. Ég veit að hún gengst við brotinu og þetta var fyrir fjórum árum. Mistök sem verður að fyrirgefa. Ég hef þekkt Charlotte í sautján ár og aldrei séð þessa hlið af henni.“
Í stað hennar keppti Becky Moody með Hester á þriðjudaginn var. Moody er komin áfram í úrslit en Hester er á mörkunum og þarf að bíða og sjá hvernig fer hjá síðustu keppendum í dag.