Íslenski boltinn

Þór kaupir Aron frá KR

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron Kristófer er snúinn heim í Þorpið.
Aron Kristófer er snúinn heim í Þorpið. Mynd/Þór Ak.

Aron Kristófer Lárusson er genginn í raðir uppeldisfélags síns Þórs. Akureyrarliðið kaupir hann frá KR.

Þór tilkynnti um komu Arons á samfélagsmiðlum í dag. Aron er uppalinn hjá Þórsurum og er því snúinn heim í Þorpið.

Aron Kristófer er 26 ára gamall vinstri bakvörður sem hefur verið á mála hjá KR frá árinu 2022. Hann spilaði níu leiki fyrir félagið í Bestu deildinni í sumar.

Aron var ekki í leikmannahópi KR gegn KA í gær en hann hefur glímt við smávægileg meiðsli vegna höggs.

Hann gengur nú í raðir Þórs sem er í sjöunda sæti Lengjudeildarinnar með 17 stig.

Tíðindin koma heldur á óvart enda KR-ingar í mikilli fallbaráttu, meiðslavandræðum og eru þunnskipaðir. Aron Kristófer var eini hreinræktaði vinstri bakvörðurinn í liði KR en Atli Sigurjónsson hefur leyst stöðu bakvarðar að undanförnu.

Pálmi Rafn Pálmason, þjálfari KR, hefur verið opinn með það að liðið þurfi á liðsstyrk að halda og nefndi það síðast í viðtali eftir 2-2 jafntefli KR við KA í gærkvöld.

Ástbjörn Þórðarson, Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Alexander Helgi Sigurðarson hafa samið við KR um að ganga í raðir félagsins eftir leiktíðina en ekkert hefur bólað á liðsstyrk í sumarglugganum sem er opinn til 17. ágúst næst komandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×