Sannkallað skítaveður var í Skotlandi í gær og það gerði mörgum kylfingum afar erfitt fyrir. Meðal þeirra var Shane Lowry en hann lék þriðja hringinn á sex höggum yfir pari eftir að hafa verið efstur eftir fyrstu tvo hringina.
Efsti maður heimslistans, Scottie Scheffler, lék á pari í gær og var á samtals tveimur höggum undir pari eftir fyrstu þrjá keppnisdagana. Hann er ýmsu vanur en segist aldrei hafa lent í öðru eins og á seinni hluta hringsins í gær.
„Þetta eru sennilega erfiðustu níu holur sem ég mun nokkru sinni spila. Þetta var frekar villt þarna úti en ég gerði vel í að harka í gegnum þetta,“ sagði Scheffler.
Hann vann Masters 2022 og 2024 og getur bætt þriðja risatitlinum í safnið í dag. Besti árangur hans á Opna breska er 8. sæti 2021.
Sýnt er beint frá lokadegi Opna breska á Stöð 2 Sport 4.