Vísir greindi frá því á síðasta ári, í aðdraganda heimsmeistaramóts kvenna, að hinar ýmsu landsliðskonu Sambíu hefðu sakað Mwape um kynferðisbrot. Knattspyrnusamband Sambíu sagði ekkert til í ásökununum og Mwape var við stjórnvölin á HM. Síðan hefur FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, hafið rannsókn á málinu en enn er Mwape í starfi.
Nú greinir The Guardian frá því að þjálfarinn megi ekki vera í einrúmi með leikmönnum sínum á Ólympíuleikunum. Þetta kemur í kjölfar þess að leikmaður Sambíu sagði hann viljandi hafa strokið yfir brjóst hennar á HM. Þá segir starfsmaður FIFA að þjálfarinn hafi gert slíkt hið sama.
Þó það sé rannsókn í gangi þá fékk hinn 64 ára gamli þjálfari á endanum ferðaleyfi til að fara til Parísar þar sem leikarnir fara fram. Hann fær hins vegar ekki að vera í einrúmi með leikmönnum og allir einn á einn fundir milli hans og leikmanna þurfa að fara fram á opinberum stöðum.
Knattspyrnusamband Sambíu svaraði ekki fyrirspurnum The Guardian um málið á meðan talsmaður Ólympíuleikana sagði að viðeigandi ráðstafanir hefðu verið gerðar vegna málsins. Talsmaður FIFA sagði slíkt hið sama.