Fótbolti

Ein af hverjum fimm knatt­spyrnu­konum glíma við átröskun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yfirlæknir leikmannasamtakanna kallar eftir meira eftirliti með andlega þættinum hjá leikmönnum.
Yfirlæknir leikmannasamtakanna kallar eftir meira eftirliti með andlega þættinum hjá leikmönnum. Getty/Jose Hernandez

Ný rannsókn sýnir að það sé mjög algengt að knattspyrnukonur glími við einhvers konar átröskun. Leikmannasamtökin vilja átak í eftirliti með andlegum málefnum leikmanna.

Rannsóknin sem um ræðir heitir Drake Football Study og er gerð á knattspyrnufólki, bæði körlum og konum. Hún hófst árið 2019 og á að taka tíu ár. Í henni er fylgst með bæði líkamlegu ástandi sem og andlegu ástandi leikmanna. Með fram rannsókninni voru gerðar sérstakar kannanir meðal ákveðinna hópa.

Kannað var þannig sérstaklega andlega þáttinn hjá þeim 74 atvinnukonum í knattspyrnu sem tóku þátt í rannsókninni. Hún skilaði meðal annars sláandi niðurstöðum um matarvenjur kvenna í fótbolta.

Þar kom fram að tuttugu prósent, ein af hverjum fimm knattspyrnukonum, hafi glímt við vandamál tengdum mataræði undanfarna tólf mánuði.

Alþjóða leikmannasamtökin, FIFPRO, vekja athygli á niðurstöðum úr rannsókninni en lesa má frétt þeirra hér.

Það koma vissulega fram mjög athyglisverðar niðurstöður eins og þær að 55 prósent leikmanna glímdu við andlega vanlíðan á þessum tólf mánuðum.

Dr Vincent Gouttebarge, er yfirlæknir hjá FIFPRO, og hann kallar eftir nauðsynlegu eftirliti með andlegu ástandi leikmanna.

„Það er fylgst með öllu hvað varðar líkamlega þáttinn eins og vöðvameiðsli, þoli, styrk, hraða og stöðu hjartans en það sama ætti að gilda um andlega heilsu viðkomandi,“ sagði Gouttebarge í frétt hjá FIFPRO.

Gouttebarge segir að mikilvægt sé að auka fræðslu um öll andleg málefni og þar á meðal átröskun. Forvarnir og upplýsingagjöf geti hjálpað mörgum knattspyrnukonum að læra að borða rétt og stuðla um leið að betri árangri í sínum íþróttagreinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×