Í dag var greint frá því að Heimir hefði verið ráðinn þjálfari írska landsliðsins. Hann stýrir Írum í Þjóðadeildinni og undankeppni HM 2026 en markmið hans verður að koma írska liðinu á heimsmeistaramótið í Norður-Ameríku eftir tvö ár.
Marc Canham, íþróttastjóri írska knattspyrnusambandsins, er í skýjunum með að hafa ráðið Heimi sem landsliðsþjálfara.
„Fyrr á þessu ári settum við Heimi efst á óskalista okkar þar sem hæfni hans og reynsla passaði vel við leitarskilyrði okkar. Hann hefur ekki aðeins umtalsverða reynslu af alþjóðlegum fótbolta með tveimur landsliðum heldur hefur hann komið liðum á stórmót og ofar á heimslistann,“ sagði Canham.

„Það er líka mikilvægt fyrir okkur að fá landsliðsþjálfara sem er áhugasamur um þróun fótboltans á Írlandi eins og við leggjum sjáum hana fyrir okkur og hefur einnig áhuga á yngri landsliðunum. Heimir hefur mikla ástríðu fyrir báðum þessum þáttum.“
Heimir var besti kosturinn
Framkvæmdastjóri írska knattspyrnusambandsins, David Courell, er ekki síður sáttur með að hafa tryggt sér starfskrafta Heimis.
„Þetta er mikilvægur dagur fyrir írskan fótbolta, að hafa tilkynnt Heimi sem nýjan landsliðsþjálfara. Það hefur verið mikill áhugi á þessari ráðningu sem sýnir hversu annt fólki er um írskan fótbolta. Við erum hæstánægð með að hafa fengið þjálfara með þá reynslu sem við leituðumst eftir en það sem mikilvægara er deilir sýn okkar fyrir írskan fótbolta. Heimir var besti kosturinn og ég er mjög spenntur að sjá hvað hann hefur fram að færa,“ sagði Courell.

Írska landsliðið hafði verið þjálfaralaust frá því í nóvember á síðasta ári, eða frá því ákveðið var að framlengja ekki samning Stephens Kenny. Þjálfaraleit Íra tók nákvæmlega 231 daga en í leikjunum fjórum á þeim tíma stýrði John O'Shea liðinu.
Heimir stýrir Írlandi í fyrsta sinn þegar liðið tekur á móti Englandi í riðli 2 í B-deild Þjóðadeildarinnar 7. september næstkomandi. Þremur dögum síðar mæta Írar Grikkjum, einnig í Dublin.
Írland er í 60. sæti styrkleikalista FIFA. Þess má geta að Heimir kom Íslandi hæst í 18. sæti listans og skilur við Jamaíku í 53. sæti hans.