Enski boltinn

Man. Utd bannað að kaupa varnar­mann en leyft að spila

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United spilar í Evrópudeildinni á komandi leiktíð eftir að hafa unnið enska bikarinn í vor.
Manchester United spilar í Evrópudeildinni á komandi leiktíð eftir að hafa unnið enska bikarinn í vor. Getty/Eddie Keogh

Fjármálaráð UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, hefur ákveðið að leyfa bæði Manchester United og Manchester City að taka þátt í Evrópukeppnum á næstu leiktíð, en bannað United að kaupa eftirsóttan varnarmann frá Nice.

Óvissa um stöðu City og United stafaði af því að UEFA leyfir ekki að fleiri en eitt félag sama eiganda geti tekið þátt í sömu keppni. Fótboltarekstur United er nú í höndum Ineos sem á einnig franska félagið Nice, og eigendur City eiga einnig spænska félagið Girona.

Fjármálaráð UEFA tilkynnti í dag að „umtalsverðar breytingar“ hefðu verið gerðar hjá Girona og Nice sem að „sannarlega heftu áhrif og ákvarðanavald eigenda“, eftir því sem fram kemur á vef BBC. Þá hafa hlutabréf verið færð af óháðum vörsluaðila í sjóð sem er undir eftirliti UEFA.

Til þess að sanna að United og City væru óháð Nice og Girona þurftu eigendurnir einnig að samþykkja að leikmenn færu ekki á milli félaganna frá júlí 2024 til september 2025.

Þetta þýðir að United getur ekki keypt franska varnarmanninn Jean-Clair Todibo frá Nice, en hann er metinn á 40 milljónir punda.

City fær hins vegar brasilíska kantmanninn Savio eins og til stóð. Hann var að láni frá Troyes til Girona en lánssamningurinn rann út 30. júní.

City mun spila í Meistaradeild Evrópu fjórtánda árið í röð en Girona tekur í fyrsta sinn þátt í keppninni eftir að hafa náð 3. sæti í spænsku deildinni á síðustu leiktíð.

United og Nice spila hins vegar í Evrópudeildinni eftir að Nice endaði í 5. sæti frönsku deildarinnar og United vann ensku bikarkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×