Íslenski boltinn

ÍR og Grinda­vík sendu skýr skila­boð

Sindri Sverrisson skrifar
Adam Árni Róbertsson kom til Grindavíkur í vetur og skoraði sigurmarkið gegn Njarðvík í kvöld.
Adam Árni Róbertsson kom til Grindavíkur í vetur og skoraði sigurmarkið gegn Njarðvík í kvöld. UMFG

ÍR-ingar unnu frábæran 3-0 sigur á Aftureldingu í kvöld, og komu sér upp fyrir Mosfellinga í 5. sæti, á meðan að Grindavík vann sætan 1-0 útisigur á liðinu í 2. sæti, Njarðvík, í Lengjudeild karla í fótbolta.

ÍR komst yfir gegn Aftureldingu í Breiðholtinu í kvöld með sjálfsmarki Arnars Daða Jóhannessonar, markvarðar Aftureldingar, á 59. mínútu.

Skömmu síðar skoraði Bragi Karl Bjarkason sitt sjöunda mark í deildinni en hann er nú markahæstur ásamt Fjölnismanninum Mána Austmann Hilmarssyni. Kristján Atli Marteinsson skoraði svo þriðja mark ÍR sem nú hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum, og gert eitt jafntefli. 

Nýliðar ÍR eru því með 16 stig líkt og ÍBV og Grindavík, næst á eftir Njarðvík sem er með 20 stig í 2. sæti. Á toppnum er Fjölnir með 24 stig en aðeins eitt lið fer beint upp um deild og liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um seinna lausa sætið í efstu deild. Afturelding er með 14 stig, núna í 6. sæti.

Í Njarðvík skoraði Adam Árni Róbertsson sigurmark Grindavíkur á 83. mínútu. Grindavík hefur því unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum, eftir þjálfaraskipti, og á leik til góða á flest hinna liðanna.

Elleftu umferðinni lýkur á laugardag þegar ÍBV mætir Leikni og Þróttur tekur á móti Dalvík/Reyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×