Íslenski boltinn

Dýr­mætur sigur Þórs en toppliðið skoraði ekki

Sindri Sverrisson skrifar
Fjölnismenn eru á toppi Lengjudeildarinnar en gáfu næstu liðum færi á að minnka forskotið í þessari umferð.
Fjölnismenn eru á toppi Lengjudeildarinnar en gáfu næstu liðum færi á að minnka forskotið í þessari umferð. vísir/Diego

Fjölnismenn verða á toppi Lengjudeildar karla í fótbolta að loknum fyrri helmingi deildakeppninnar, eftir markalaust jafntefli við Keflavík í kvöld í 11. umferðinni.

Fjölnir hefur aðeins tapað einum leik í deildinni það sem af er leiktíð og er með 24 stig, fjórum stigum á undan Njarðvík sem á þó inni leik sinn við Grindavík sem nú stendur yfir.

Engin mörk voru skoruð í Grafarvoginum í kvöld og Keflvíkingar hafa þar með spilað fimm leiki í röð án sigurs, en gert í þeim fjögur jafntefli, og eru í 8. sæti með 12 stig.

Keflavík missti Þór upp fyrir sig í kvöld því Þórsarar unnu dýrmætan 3-1 sigur gegn Gróttu á Akureyri, og fara því glaðbeittir inn í Pollamótshelgina.

Grótta komst yfir með marki Péturs Theódórs Árnasonar í lok fyrri hálfleiks, en Þórsarar voru fljótir að komast yfir í seinni hálfleik með mörkum frá Ragnari Óla Ragnarssyni og Kristófer Kristjánssyni. Rafael Victor innsiglaði svo sigurinn í blálokin.

Fyrir leikinn á Akureyri voru Þór og Grótta bæði með 10 stig, aðeins stigi fyrir ofan fallsæti, en sigurinn kom Þór upp í 6. sæti, að minnsta kosti tímabundið, og beint inn í baráttuna um umspilssæti. Staðan skýrist betur í kvöld þegar leikjum ÍR og Aftureldingar, og Njarðvíkur og Grindavíkur, lýkur. Umferðinni lýkur svo á laugardag þegar ÍBV mætir Leikni og Þróttur mætir Dalvík/Reyni.

Upplýsingar um markaskorara eru af vef Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×