Körfubolti

Hilmar Smári semur við Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson snýr aftur í Garðabæinn og styrkir lið Stjörnunnar mikið.
Hilmar Smári Henningsson snýr aftur í Garðabæinn og styrkir lið Stjörnunnar mikið. @stjarnankarfa

Stjörnuliðið er til alls líklegt í Subway deild karla í körfubolta á næsta tímabil en Stjarnan sagði frá frábærum liðstyrk í kvöld.

Landsliðsmaðurinn Hilmar Smári Henningsson hefur ákveðið að semja við Stjörnuna en hann spilaði í Þýskalandi í vetur.

Hilmar Smári þekkir vel til hjá Stjörnunni en hann spilaði með liðinu tímabilið 2021-22. Þá var hann með 12,0 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann kemur til liðsins frá Eisbaren Bremerhaven í Þýskalandi.

Hilmar lék síðast með Haukum hér á landi en það er hann uppeldisfélag. Hilmar var með 18,0 stig og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik tímabilið 2022-23 og var þá einn besti íslenski leikmaður deildarinnar.

Það er ljóst að þetta er svakalegur liðstyrkur sem Stjarnan er að fá og annar landsliðsmaður sem félagið fær heim úr atvinnumennsku á stuttum tíma. Áður ákvað Orri Gunnarsson að spila með liðinu en hann lék í Austurríki síðasta vetur. Baldur Þór Ragnarsson tekur við liðinu af Arnari Guðjónssyni.

Hilmar hefur einnig reynt fyrir sér á Spáni og með Þór Akureyri.

„Það er mikill fengur fyrir Stjörnuna að fá Hilmar Smára til liðs við okkur. Hann hefur sýnt mikil gæði í leik sýnum og við teljum hann fullkomið púsl í okkar lið,“ sagði Einar Karl, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, við miðla félagsins.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili í Garðabænum. Ég tel mig vera mjög góða viðbót inn í hópinn sem Baldur hefur nú þegar sett saman og verða háleit markmið sett fyrir veturinn” sagði Hilmar Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×