Viðskipti innlent

Sóttu rúman milljarð í fjár­mögnun

Árni Sæberg skrifar
Róbert Guðfinnsson er stofnandi og stjórnarformaður Genís.
Róbert Guðfinnsson er stofnandi og stjórnarformaður Genís. Vísir/Egill

Líftæknifyrirtækið Genís hf. hefur tryggt sér 1,1 milljarð króna í nýtt hlutafé til áframhaldandi þróunar á beinígræðum og lyfjum við bólgusjúkdómum.

Í fréttatilkynningu frá Genís segir að félagið, sem hafi um tveggja áratuga skeið unnið að rannsóknum og þróun á lífvirkum kítínfásykrum til notkunar í fæðubótarefnum, lyfjum og við beinígræðslu, hafi lokið fjármögnun, sem feli í sér hlutafjáraukningu að fjárhæð 1,1 milljarð króna.

Að hlutafjáraukningunni hafi komið bæði núverandi hluthafar og nýir fjárfestar. Á aðalfundi félagsins þann 20. júní síðastliðinn hafi Baldvin Björn Haraldsson tekið sæti í stjórn. Auk hans í stjórn sitji Róbert Guðfinnsson, formaður stjórnar, Gunnhildur Róbertsdóttir, Sigþór Sigmarsson og Tómas Már Sigurðsson.

Fjármögnuninni sé fyrst og fremst ætlað að styðja við áframhaldandi klínískar rannsóknir og þróun lyfja og lækningatækja, einkum á sviði beinendurnýjunar þar sem byggt er á endurnýjunar-, beinvirkni-, og bakteríudrepandi eiginleikum kítínafleiða.

„Trú núverandi hluthafa og nýrra reynslumikilla fjárfesta í nýafstaðinni hlutafjáraukningu endurspeglar þann árangur sem Genís hefur náð að undanförnu. Félagið stendur styrkum fótum og krafturinn og metnaðurinn í okkar framúrskarandi starfsfólki gefur tilefni til mikillar bjartsýni,“ er haft eftir Róberti Guðfinnssyni, stofnanda og stjórnarformanni Genís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×