Gestirnir fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Emil Atlason skoraði eftir aðeins um 30 sekúndna leik eftir frábæra sendingu í gegnum vörnina frá Helga Fróða. HK jafnaði svo leikinn á 27. mínútu með marki frá Arnþóri Ara Helgasyni og komust svo yfir með marki í uppbótartíma með marki frá Viktori Helga Benediktssyni.
Skömmu eftir að flautað var til seinni hálfleiks varð Hilmar Árni Halldórsson svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark og heimamenn komnir í 3-1.
Allt útlit var fyrir að HK myndi sigla í höfn öruggum sigri en á tveggja mínútna kafla jöfnuðu gestirnir leikinn. Haukur Örn Brink minnkaði í 3-2 á 87. mínútu og Emil Atlason skoraði sitt annað mark á 89. og jafnt á öllum tölum, 3-3.
Á 92. mínútu unnu HK-ingar boltann á miðjunni, Atli Hrafn Andrason var fljótur að hugsa og sá að Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, var alltof framarlega, lét vaða og setti sannkallað draumamark rétt við slána.
4-3 heimasigur niðurstaðan eftir mikla dramatík í lokin og HK með sinn annan sigur í röð.