Fyrir­liðinn með mark og stoðsendingu í sigri gegn Ung­verjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fyrirliðinn Ilkay Gundogan var allt í öllu hjá Þýskalandi í dag.
Fyrirliðinn Ilkay Gundogan var allt í öllu hjá Þýskalandi í dag. Image Photo Agency/Getty Images

Þýskaland vann 2-0 gegn Ungverjalandi í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins. Jamal Musiala og Ilkay Gundogan skoruðu mörkin.

Leikurinn hófst með látum þegar misskilningur milli varnarmanna Þýskalands leiddi næstum því til þess að Ungverjar tækju forystuna en markmaðurinn Manuel Neuer kom til bjargar.

Ungverjar lágu annars langt til baka og leyfðu Þjóðverjum að sækja. Þeir sköpuðu sér urmul marktækifæra og tóku forystuna á 22. mínútu.

Ilkay Gundogan braut sér þar leið inn fyrir vörnina og eftir mikið klafs kom hann boltanum út á Jamal Musiala sem kláraði færið. Ungverjar vildu brot dæmt á Gundogan en fengu ekkert fyrir sinn snúð. 

Musiala þakkar Gundogan fyrir vel upplagt markImage Photo Agency/Getty Images

Ungverjar lyftu sér aðeins ofar eftir að hafa lent undir og fengu aukaspyrnu á hættulegum stað á 26. mínútu. Dominik Szoboszlai skaut frábæru skoti sem virtist ætla að syngja í netinu en Manuel Neuer hélt boltanum frá með frábærri markvörslu og Barnabás Varga tókst ekki að klára færið í frákastinu.

Neuer þurfti að hafa fyrir hlutunumAlexander Hassenstein/Getty Images

Þjóðverjar voru þó enn við völdin og komust nálægt því að bæta öðru marki við rétt fyrir hálfleik. Florian Wirtz þræddi boltanum þá í gegn á Jamal Musiala sem skaut föstu skoti í varnarmann og rétt framhjá markinu.

Leikurinn var áfram opinn og Ungverjar fengu frábært færi til að jafna á 60. mínútu en Barnabás Varga tókst ekki að stýra skallanum á markið.

Sjö mínútum síðar tóku Þjóðverjar tveggja marka forystu. Fyrirliðinn Ilkay Gundogan var þar á ferðinni og kláraði auðvelt færi sem vinstri bakvörðurinn Maximilian Mittelstaedt lagði upp eftir góðan sprett.

Síðustu mínútur leiksins voru Þjóðverjar líklegri til að bæta öðru marki við en Ungverjar voru að minnka muninn. Það varð þó ekkert úr því og 2-0 lokaniðurstaða leiksins. 

Þjóðverjar hófu leik á 5-1 stórsigri gegn Skotlandi, eru því með sex stig eftir tvo leiki og í afar vænlegri stöðu. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira