Þau Margrét Brynjólfsdóttir, Gísli Jónsson, Edvard Júlíusson og Sveinn Ísaksson nutu þess að spila í blíðskaparveðri á Húsatóftavelli í dag þegar að okkur bar að garði og voru himinlifandi með að geta leikið aftur golf á sínum velli því gengið hefur á ýmsu undanfarna mánuði.
„Það er góð tilfinning sem fylgir því að snúa hingað aftur á Húsatóftavöll og leika golf á nýjan leik. Það er ekki hægt að segja annað,“ segir Gísli Jónsson. Völlurinn er í toppstandi.“
Margrét tók undir orð Gísla en þau eru Grindvíkingar og hafa verið annað slagið í bænum.
„Þetta hefur allt saman verið í lausu lofti. En þetta fer að lagast.“
Með þeim í för á Húsatóftavelli þennan dag var Edvard Júlíusson sem er hvorki meira né minna en einn af stofnmeðlimum Golfklúbbs Grindavíkur. Hann líkt og aðrir er ótrúlega ánægður með að geta spilað aftur golf á vellinum.
„Það er ekki hægt að segja neitt annað. Það fylgir því þvílík sæla að koma hingað aftur. Taka upp sömu gripin og maður hefur haft árum saman.“
Þú hefur engu gleymt?
„Nei engu gleymt,“ svaraði Edvard. „ Engu gleymt. Blessaður vertu við erum enn að ná fuglum og pari. Allt það sem þarf að vinna í þessu.
Kylfingar sem leika golf á Húsatóftavelli þurfa að fara eftir ákveðnum reglum sem gilda á svæðinu sökum jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Fjórmenningarnar upplifa sig fullkomlega örugga á svæðinu.
„Þetta eru sömu gömlu sprungurnar og hafa alltaf verið hér. Það er engin hætta á því að maður fari ofan í þær,“ svaraði Gísli og Edvard endurómaði hans orð: „Við þekkjum þetta alveg.“