Fótbolti

„Róm var ekki byggð á einum degi“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gregg Ryder sagðist ekki stoltur af spilamennsku KR þessa dagana.
Gregg Ryder sagðist ekki stoltur af spilamennsku KR þessa dagana. Vísir/Anton Brink

Gregg Ryder þjálfari KR segist ekki vera stoltur af því hvernig lið hans er að spila. KR tapaði 5-3 á heimavelli gegn Val í kvöld.

Þrátt fyrir að hafa byrjað leikinn frábærlega í kvöld voru KR-ingar 4-2 undir eftir fyrri hálfleikinn og varnarleikur liðsins í molum.

„Við byrjum vel og komumst yfir. Við skorum tvö mörk og viljum byggja ofan á það. Maður verður að gera það og sjá til þess að vera þéttir til baka til að koma í veg fyrir að við fáum á okkur mark í kjölfarið. Við gerum akkúrat öfugt,“ sagði Ryder eftir leik en Valur minnkaði muninn fimm mínútum eftir annað mark KR og skoraði svo þrjú mörk á sjö mínútna kafla síðar í fyrri hálfleiknum.

Ryder segist hafa búist við dýfum í spilamennsku liðsins þegar hann tók við starfinu en á orðum hans má greina að hann óski eftir meiri tíma til að setja sinn stimpil á leik KR.

„Þegar ég fékk starfið þá vissi ég að það væri ákveðið ferli sem við þyrftum að fara í gegnum. Ég vissi að Róm yrði ekki byggð á einum degi og ég vissi að það kæmu dýfur. Þetta er ekkert sem ég er stoltur af, hvernig liðið er að spila.“

Þrátt fyrri að KR hafi aðeins leikið níu leiki á leiktíðinni eru sögusagnir þegar komnar af stað um að starf Gregg Ryder sé í hættu og að KR muni fá Óskar Hrafn Þorvaldsson í hans stað.

„Ég held að í þessum níu leikjum sem við höfum spilað höfum við sýnt ýmislegt jákvætt. Það hefur líka verið ýmislegt neikvætt og hlutir sem við þurfum að laga. Það má ekki bíða og verður að gerast strax.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×