Íslenski boltinn

Njarð­víkingar rústuðu Þórsurum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Njarðvíkingar eru með þriggja stiga forskot á toppi Lengjudeildar karla.
Njarðvíkingar eru með þriggja stiga forskot á toppi Lengjudeildar karla. njarðvík

Njarðvík gerði sér lítið fyrir og valtaði fyrir Þór, 5-1, þegar liðin áttust við suður með sjó í Lengjudeild karla í kvöld.

Njarðvíkingar hafa heldur betur byrjað tímabilið vel og eru nú með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Strákarnir hans Gunnars Heiðars Þorvaldssonar hafa unnið fjóra af fimm leikjum sínum og gert eitt jafntefli.

Njarðvík byrjaði leikinn í kvöld af krafti og náði forystunni strax á 3. mínútu þegar Dominik Radic skoraði. Kaj Leo í Bartalsstovu bætti öðru marki við eftir tuttugu mínútur og staðan í hálfleik 2-0, heimamönnum í vil.

Birkir Heimisson minnkaði muninn fyrir Þórsara á 62. mínútu og hleypti spennu í leikinn.

En Njarðvíkingar endurheimtu tveggja marka forskot þegar Oumar Diouck skoraði á 77. mínútu. 

Diouck lagði upp mark fyrir Freystein Inga Guðnason á 90. mínútu og skoraði svo sjálfur annað mark sitt í uppbótartíma. Þór fékk vítaspyrnu eftir fimmta mark Njarðvíkur en Rafael Victor skaut framhjá. Lokatölur því 5-1, Njarðvík í vil.

Þetta var fyrsta tap Þórsara í sumar en þeir eru með sex stig í 4. sæti deildarinnar.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×