Á morgun verður svo áttin áfram vestlæg eða norðvestlæg, víða á bilinu þrír til átta metrar á sekúndu en meiri, eða átta til 13 metrar á sekúndu með suðurströndinni. Það verður skýjað á norðanverðu landinu og lítilsháttar væta þar, einkum framan af degi. Eitthvað mun sjást til sólar sunnanlands á morgun, en líkur á skúrum á stöku stað.
Hiti í dag og á morgun 6 til 15 stig, svalast í þokulofti við norður- og austurströndina.
Fyrrihluta fimmtudags gera spár ráð fyrir að regnsvæði verði á hraðferð yfir landið frá vestri til austurs, en styttir upp eftir hádegi. Þessu fylgir vindnæðingur, suðvestan 8-15 m/s eru í vindkortunum á fimmtudag, hvassast í norðvesturfjórðungi landsins.
Flestir vegir, utan fjallavega, eru grænir og greiðfærir á veg Vegagerðarinnar. Hægt er að fylgjast þar með nýjustu upplýsingum um færð vega og framkvæmdir. Á vef Veðurstofu er svo uppfærð veðurspá.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Vestan og norðvestan 3-8 m/s, en 8-13 við suðurströndina. Skýjað með köflum og sums staðar dálítil væta. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Suðausturlandi. Vaxandi sunnanátt á vestanverðu landinu um kvöldið.
Á fimmtudag:
Suðvestan 8-15, hvassast norðvestantil á landinu. Víða dálítil rigning fyrir hádegi, en styttir upp að mestu síðdegis og léttir þá til norðaustan- og austanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á föstudag:
Suðvestan 8-15 og bjartviðri, en lítilsháttar rigning suðvestantil á landinu. Hiti breytist lítið.
Á laugardag og sunnudag (sjómannadagurinn):
Ákveðin suðvestanátt og væta af og til, hiti 8 til 12 stig. Bjart að mestu norðaustan- og austanlands með hita að 18 stigum.
Á mánudag:
Snýst í norðanátt með lítilsháttar rigningu á norðanverðu landinu og kólnar þar. Birtir upp sunnantil með hita að 16 stigum yfir daginn.