Enski boltinn

Rashford kveður samfélagsmiðla í bili og sendir smá pillu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lisandro Martinez hvíslar hér í eyra Marcus Rashford eftir að Manchester United hafði tryggt sér enska bikarinn.
Lisandro Martinez hvíslar hér í eyra Marcus Rashford eftir að Manchester United hafði tryggt sér enska bikarinn. Getty/Visionhaus

Marcus Rashford sendi fylgjendum sínum smá skilaboð í gærkvöldi en hann segist vera farinn í frí og ætlar að kúpla sig alveg út.

Rashford varð bikarmeistari með Manchester United um helgina en þetta hefur verið stormasamt tímabil hjá framherjanum.

Nú síðast kom það í ljós að hann verður ekki með enska landsliðinu á Evrópumótinu í sumar.

Rashford færi því nægan tíma í sumar til að slappa af og hlaða batteríin næstu mánuði. Það er líka einmitt það sem hann ætlar að gera.

„Það er kominn tími á það að yfirgefa samfélagsmiðlana í nokkrar vikur. Ég ætla að hvílast og endurstilla mig andlega eftir mjög krefjandi tímabil, bæði persónulega og fyrir liðið,“ skrifaði Rashford og leyfði sér líka að senda smá pillu á gagnrýnendur sína.

„Ég vil þakka stuðningsfólkinu sem stóð með mér í gegnum þessa erfiðu tíma. Til þeirra sem voru búnir að gleyma því þá stöndum við alltaf saman hjá United,“ skrifaði Rashford.

Hinn 26 ára gamli Marcus Rashford skoraði 8 mörk og gaf 5 stoðsendingar í 43 leikjum í öllum keppnum þar af var hann með 7 mörk og 2 stoðsendingar í 33 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×