Þetta kemur fram í sérstöku kosningamælaborði auglýsingastofunnar Sahara, þar sem sjá má upplýsingar um veru frambjóðenda á samfélagsmiðlum.
Meðal þess sem sjá má á síðunni er fylgjendafjöldi á samfélagsmiðlum og hversu miklu frambjóðendur hafa varið í auglýsingar á Meta, móðurfélags Facebook og Instagram, og Google.
Ástþór heldur áfram að eyða
Líkt og áður trónir Ástþór Magnússon á toppnum hvað útgjöld á miðlunum varðar. Hann hefur eytt margfalt meira en aðrir frambjóðendur. Ásdís Rán hefur eytt svo gott sem engu á samfélagsmiðlunum, aðeins 130 krónum.
Ásdís með flesta á Instagram, Jón á Facebook og Baldur á TikTok
Sem áður segir er Ásdís Rán með flesta fylgjendur á Instagram, sem ætti ekki að koma á óvart þar sem hún hefur lengi verið vinsæl á miðlinum.
Á Facebook er það Jón Gnarr sem er með flesta fylgjendur, samanlagt 111 þúsund fylgjendur. Í samantekt Sahara eru aðeins fylgjendur síðunnar Jón forseti 2024, 18 þúsund talsins, taldir. Hann er þó með aðra opinbera síðu, sem kennd er við Jón Gnarr listamann, sem er með 93 þúsund fylgjendur.
Svipað eru uppi á teningnum hjá Ásdísi Rán, sem er með næstflesta fylgjendur á Facebook. Sahara telur hana í öðru sæti á eftir Katrínu Jakobsdóttur, sem er með 31 þúsund fylgjendur, með 24 þúsund fylgjendur. Hún er einnig með síðu kennda við IceQueen, sem er með 51 þúsund fylgjendur.
Baldur Þórhallsson er svo með langflesta fylgjendur á TikTok en þó aðeins 1.102. Aftur er það Ásdís Rán sem næstflestir fylgja, 759 manns.
Fréttin hefur verið leiðrétt eftir ábendingar úr herbúðum þeirra Jóns og Ásdísar Ránar.