Fótbolti

Le­verku­sen bikar­meistari eftir von­brigðin í Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xabi Alonso stýrði Leverkusen til sigurs í dag.
Xabi Alonso stýrði Leverkusen til sigurs í dag. Stuart Franklin/Getty Images

Bayer Leverkusen er þýskur bikarmeistari í knattspyrnu karla. Liðið stendur uppi sem bæði Þýskalandsmeistari sem og þýskur bikarmeistari eftir ótrúlegt tímabil þar sem eina tap liðsins kom gegn Atalanta í úrslitum Evrópudeildarinnar.

Lærisveinar Xabi Alonso fóru taplausir í gegnum þýsku úrvalsdeildina en liðið mátti svo þola heldur óvænt 3-0 tap í úrslitum Evrópudeildarinnar. Það tap gerði leik dagsins gegn B-deildarliði Kaiserslautern eilítið meira spennandi en fyrir leik var búist við öruggum sigri Leverkusen.

Granit Xhaka, sem gekk í raðir Leverkusen á nýjan leik frá Arsenal síðasta sumar, sá hins vegar til þess að Leverkusen endaði tímabilið á jákvæðum nótum. Hann skoraði glæsilegt mark á 17. mínútu þegar hann þrumaði boltanum á lofti í vinstri samskeytin og staðan orðin 1-0.

Það gekk illa hjá Leverkusen að bæta við öðru marki og undir lok fyrri hálfleiks fékk Odilon Kossounou sitt annað gula spjald en það var sem hann hefði ekki áttað sig á að hann væri á spjaldi.

Við það fór um lið Leverkusen sem lagðist til baka í síðari hálfleik á meðan B-deildarlið Kaiserslautern gerði hvað það gat til að jafna metin. Það gekk þó ekki og Leverkusen vann 1-0 sigur sem tryggði liðinu þýska bikarinn.

Ótrúlegu tímabili lokið og verður forvitnilegt að sjá hvernig liðið mætir til leiks á næstu leiktíð en það er næsta öruggt að stórlið Evrópu munu kroppa í leikmenn þess í sumar.


Tengdar fréttir

Þrennan sem eyðilagði fullkomið tímabil Leverkusen

Atalanta gerði sér lítið fyrir og vann Bayer Leverkusen fyrst allra liða á leiktíðinni þegar þau mættust í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í fótbolta. Mörk leiksins má sjá í spilaranum hér að neðan. Þau koma öll frá sama manninum en gætu þó vart verið ólíkari. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×