Fótbolti

Spútnikliðið endaði sögu­legt tíma­bil á stór­sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Artem Dovbyk fagnar marki með félögum sínum í Girona.
Artem Dovbyk fagnar marki með félögum sínum í Girona. Getty/Aitor Alcalde

Girona endaði langbesta tímabilið í sögu félagsins með því að vinna stórsigur á Granada í lokaumferðinni.

Girona vann leikinn 7-0 og endar með 81 stig og markatöluna 85-46 í 38 leikjum. Artem Dovbyk skoraði þrennu í leiknum og er orðin markahæstur í deildinni.

Girona endar í þriðja sæti spænsku deildarinnar og spilar í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Liðið var lengi í efsta sæti deildarinnar en gaf aðeins eftir í baráttunni við risana Real Madrid og Barcelona.

Barcelona er aðeins einu stig á undan Girona en Börsungar eiga leik inni um helgina.

Eric Garcia skoraði fyrsta markið með skalla á 30. mínútu og Viktor Tsigankov kom Girona í 2-0 aðeins þremur mínútum síðar. Þriðja markið skoraði Artem Dovbyk úr víti á 44. mínútu.

Viktor Tsigankov skoraði sitt annað mark í leiknum á 54. mínútu og sjö mínútum síðar missti Granada Facundo Pellistri af velli með rautt spjald.

Manni fleiri bætti Girona við þremur mörkum. Það fyrsta skoraði Artem Dovbyk á 75.mínútu og Úkraínumaðurinn lagði síðan upp sjötta markið fyrir Cristhian Stuani. Dovbyk skoraði síðan sjöunda markið úr vítaspyrnu á 90. mínútu.

Dovbyk komst með þessum þremur mörkum upp fyrir Norðmanninn Alexander Sorloth á listanum yfir markahæstu leikmenn spænsku deildarinnar í vetur. Dovbyk er með 24 mörk en Sorloth 23 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×