Spænska körfuboltadeildin ACB framleiddi þessa nýju heimildarmynd um Tryggva sem á aðeins örfáum árum fór frá því að keppa í körfubolta í fyrsta sinn í það spila í Meistaradeildinni í körfubolta.
Þessi 216 sentimetra og 26 ára gamli körfuboltamaður hefur haldið velli í bestu körfuboltadeild Evrópu og er á góðri leið með að vera sá Íslendingur sem hefur spilað þar lengst samfellt.
Það eru ekki aðeins körfuboltahæfileikar Tryggva sem hafa vakið athygli heldur einnig uppruni hans og æska í Svartárkoti í Bárðardal.
Heimildarmyndin heitir Kindur (Ovejas) og fjallar um heimsókn spænska körfuboltamannsins Rafa Martínez til Tryggva og fjölskyldu hans í Svartárkoti.
Martínez er nýbúinn að leggja skóna á hilluna eftir langan og farsælan feril. Þegar Tryggvi sagði honum að hann væri fjárbóndi á sumrin þá lofaði Martínez honum að koma í heimsókn þegar skórnir væru komnir upp á hillu.
Martínez stóð við stóru orðin síðasta sumar og með honum komu myndatökumenn til að festa allt á filmu.
Tryggvi segir meðal annars í myndinni að meðan að liðsfélagarnir hans á Spáni séu í afslöppun í sumarfríinu sínu þá sé hann mættur norður í Svartárkot til að vinna langan vinnudag. Einnig segir hann frá því hvernig fjölskyldan tók því þegar hann sagði frá því að hann væri að yfirgefa bóndabæinn til að spila körfubolta á Spáni.
Tvær stiklur fyrir myndina má sjá í spilurunum hér að ofan. Myndin verður svo sýnd í kvöld klukkan 20.45 á Stöð 2 Sport 2. Hér er hægt að næla sér í áskrift.