Enski boltinn

Arteta hælir Ten Hag og vonast til að hann haldi á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Arteta og Erik ten Hag hafa verið í afar ólíkum málum í ensku úrvalsdeildinni í vetur en eiga báðir möguleika á að ljúka leiktíðinni með titli.
Mikel Arteta og Erik ten Hag hafa verið í afar ólíkum málum í ensku úrvalsdeildinni í vetur en eiga báðir möguleika á að ljúka leiktíðinni með titli. Getty/David Price

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, þarf að skáka Erik ten Hag í dag til að halda í við Manchester City í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Ten Hag berst hins vegar fyrir lífi sínu sem stjóri Manchester United.

United og Arsenal mætast á Old Trafford í dag og er Arsenal talið mun sigurstranglegra, þrátt fyrir að hafa aðeins unnið einn af síðustu sextán deildarleikjum sínum á þessum velli.

Ten Hag veitir ekki af sigri í baráttu sinni um að halda starfinu, eftir hroðalegt tap gegn Crystal Palace í síðasta leik sem olli því að United er í 8. sæti. Arteta gerði hins vegar ekki annað en að hrósa kollega sínum á blaðamannafundi, þegar hann var spurður út í stöðu hans:

„Ég get bara talað um hann sem þjálfara. Hann er framúrskarandi þjálfari. Ég dáist að liðunum hans, bæði Ajax og United,“ sagði Arteta.

„Vonandi fær hann lengri tíma því við erum kollegar og við vitum hvað þessi deild er erfið, og hve lítið má út af bregða. Vonandi verður það þannig því hann er frábær þjálfari,“ sagði Arteta og kvaðst bera gríðarlega virðingu fyrir Ten Hag, og skilja hverju hann væri að reyna að ná fram hjá United.

Ten Hag var spurður hvort að hann sæi eftir því að hafa tekið við United, nú þegar ítrekað heyrist orðrómur um að hann verði látinn fara eftir tímabilið.

„Ég sé ekki eftir því í eitt augnablik. Þetta er risastór klúbbur. Maður þekkir ekki áskoranirnar fyrr en maður stendur frammi fyrir þeim. En ég vildi þessa áskorun,“ sagði Ten Hag sem stýrði United til sigurs í enska deildabikarnum í fyrra, á sinni fyrstu leiktíð, eftir sex ára bið félagsins eftir titli. Annar titill gæti mögulega komið 25. maí þegar liðið mætir Manchester City í bikarúrslitaleik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×