Íslenski boltinn

Að­eins einn upp­alinn Valsmaður í Bestu deild karla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir Már Sævarsson reynir markskot í leik gegn Fram.
Birkir Már Sævarsson reynir markskot í leik gegn Fram. vísir/anton

Birkir Már Sævarsson er eini uppaldi Valsmaðurinn sem er að spila í Bestu deild karla.

Þetta kemur fram í úttekt Leifs Grímssonar. Hann tók saman úr hvaða félögum þeir tæplega tvö hundruð íslensku leikmenn sem hafa spilað í Bestu deildinni í sumar koma.

Langflestir koma úr Breiðabliki, eða 22. Fylkir og FH eiga næstflesta fulltrúa í Bestu deildinni, eða fimmtán hvort lið. HK á fjórtán, ÍA þrettán og Fram, KR og Stjarnan tólf hvor.

Lengjudeildarlið Fjölnis og Aftureldingar eiga ellefu og tíu leikmenn í Bestu deildinni.

Athygli vekur að Valur á aðeins einn uppalinn leikmann í Bestu deildinni. Það er hinn bráðum fertugi Birkir Már. Hann hefur leikið allar 450 mínútur Vals í Bestu deildinni á tímabilinu.

Leikmennirnir í ógnarsterkum hópi Vals koma víða að en Birkir Már er sá eini sem er uppalinn hjá félaginu.

Leifur tók einnig saman hversu margir uppaldir leikmenn hafa spilað með sínu félagi í sumar. 

Þar trónir Fylkir á toppnum en tólf uppaldir Fylkismenn hafa leikið með liðinu í sumar. HK kemur næst með tíu uppalda leikmenn. Níu uppaldir leikmenn hafa spilað með ÍA, Fram, Stjörnunni og KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×