Hún segir metþátttaka hafa verið á mótinu og að Kraftlyftingafélag Reykjavíkur hafi mætt fjölmennt og sterkt til leiks.
Sigríður segir að íþróttin snúist alls ekki um að rífa bara einhvern veginn í lóðin. Heldur þarf tækni og hlýðni gagnvart fyrirmælum til að gera gildar lyftur.
„Menn komast lítið áfram með agaleysi eða gassagangi,“ skrifar hún í færslu sem hún birti á síðu sinni á Facebook í dag.
Sigríður hrósaði aðstöðu lyftingadeildar Stjörnunnar sem hýsti mótið og segir að ekki þurfi að spyrja að Garðbæingunum. „Allt topp næs í Miðgarðshúsinu þeirra nýja, lóð og bekkir.“

„Við í einkarekna KFR minnum okkur samt á að það er æfingin sem skapar meistarann og góð stemning við það,“ segir hún.
Sigríður tók hnébeygju með hundrað kíló, bekkpressu með 55 og réttstöðulyftu með 110 kíló, sem hún tekur fram að hafi verið persónulegt met.